Segir íþróttaframkvæmdir í Reykjavík í uppnámi

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, segir að þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar, sem kynnt var í gær, feli í sér stórfelldan niðurskurð á stofnframkvæmdum íþróttamannvirkja.

Segir hann að á árunum 2009-2011 sé ekki ætluð króna í framtíðarsvæði Fram í Úlfarsfelli og að auki séu framkvæmdir ÍR, KR, Fylkis og fleiri félaga í fullkomnu uppnámi.

Bolli Thoroddsen, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs, segir í tilkynningu, að í áhersluatriðum og forgangsröðun fulltrúa F-listans og Sjálfstæðisflokks í málefnum ÍTR sé m.a. gert ráð fyrir að ljúka vinnu og gerð samninga um uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá ÍR, Fram, Fylki, Fjölni, Þrótti og KR.

Meirihluti Íþrótta- og tómstundaráðs muni standa við þau áform sem gefin hafi verið um uppbyggingu  íþróttamannvirkja í borginni, en telji nauðsynlegt að fara yfir þau mál, vel og vandlega með félögunum með tilliti til forgangsröðunar og á hvern hátt skuli staðið að þeirri miklu uppbyggingu, sem óskað hafi verið eftir. 

Bolli segir, að ábyrg fjármálastjórn sé lykilatriði í stefnu núverandi meirihluta og miða þurfi útgjöld borgarinnar við áætlaðar framtíðartekjur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert