Kennarasamband Íslands segir, að launaþróun félagsmanna í framhaldsskólum hafi ekki fylgt launaþróun hefðbundinna viðmiðunarhópa hjá ríkinu á yfirstandandi samningstímabili og hafi framhaldsskólakennarar dregist umtalsvert aftur úr þeim í grunnlaunum.
KÍ segir, að árið 2002 hafi meðaldagvinnulaun framhaldsskólakennara verið þau sömu og meðaldagvinnulaun félagsmanna BHM. Um mitt síðasta ár hafi meðaldagvinnulaun kennara hins vegar verið komin 7 prósent niður fyrir meðaldagvinnulaun félagsmanna BHM. Í krónum talið var munurinn í júlí um 20 þúsund krónur á mánuði og síðan hafi bilið haldið áfram að breikka.
Í ályktun sem félög kennara og stjórnenda í framhaldsskólum hafa sent frá sér segir m.a. að samanburður milli landa á kennaralaunum sem hlutfall af landsframleiðslu á mann sé ekki uppörvandi fyrir íslenska kennara. Hlutfallsleg launastaða þeirra sé mjög slök miðað við flest önnur OECD ríki og sé kaupgeta meðalgrunnlauna framhaldsskólakennara á Íslandi hin fimmta lægsta í OECD ríkjunum.
Í ályktuninni segir að óánægja framhaldsskólakennara með laun sín og starfskjör kunni að leiða til þess að þeir leiti í önnur störf þar sem boðið er upp á betri kjör. Meginviðfangsefni í næstu kjarasamningum sé að koma í veg fyrir að svipað ástand skapist og árið 2000 þegar slök launaþróun leiddi til tveggja mánaða verkfalls. Í næstu kjarasamningum þurfi að leiðrétta laun kennara í framhaldsskólum og tryggja að kjör þeirra haldi í við laun annarra háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna.