Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, segir það tvískinnung að hægt sé að spila upp á fé í leikjum á borð við bingó og brids og í myrkvuðum spilasölum, en að ekki sé leyfilegt að menn komi saman og leggi fé undir í pókerspili sér til skemmtunar.
Birkir spilaði póker á samkomu um helgina ásamt fjölda annarra og lagði undir fé. Hann segir þó ekki rétt að hann hafi hagnast um tugi þúsunda líkt og haldið hefur verið fram. Birkir segist ekki líta svo á að þarna hafi verið um skipulagt mót að ræða heldur hafi menn komið saman og spilað póker sér til skemmtunar.
Á mótinu var ekki fast þátttökugjald heldur völdu menn sjálfir þá upphæð sem þeir lögðu undir, og gátu svo leyst út hagnaðinn ef einhver var.
Birkir segist ekki telja að um lögbrot hafi verið að ræða, heldur sé það ólöglegt að menn hafi atvinnu af eða hagnist af því að skipuleggja slík mót. Það segir Birkir ekki hafa gerst á viðkomandi samkomu.
„Ég vil benda á þann tvískinnung að menn séu að taka þetta spil út fyrir sviga um leið og verið að spila upp á peninga í bingói og brids og í myrkvuðum spilasölum. Mér finnst tími til kominn að íslenskir ráðamenn átti sig á því að þetta spil er einfaldlega spilað úti um allan bæ, og mér finnst betra að þetta sé þá uppi á yfirborðinu."
Þá segir Birkir að löggjafinn þurfi að sjálfsögðu að fylgja tíðarandanum. „Og í þessu máli tel ég að löggjafinn hafi ekki fylgt honum."