Fjármálageirinn hefur hafið uppsagnir á starfsfólki, sem reyndar hafa legið í loftinu frá því um áramót. , samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Jafnframt herma heimildir Morgunblaðsins að um 40 starfsmenn Kaupþings eigi uppsögn yfir höfði sér.
Forsvarsmenn bankanna í samvinnu við yfirmenn einstakra deilda og útibúa munu hafa farið yfir þessi mál af kappi á undanförnum vikum.
Glitnir hefur ákveðið að loka útibúi sínu í Smáralind og funduðu forsvarsmenn bankans um þá ákvörðun með starfsfólki í síðustu viku. Þá hefur Glitnir ákveðið tilfærslur í Noregi sem þýða fækkun starfsmanna um allt að 20. Það eru því nálægt 40 manns sem Glitnir hefur sagt upp að undanförnu á Íslandi og í Noregi, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.
Heimildir Morgunblaðsins herma að fjármálastofnanir hafi þurft að grípa til þessara ráða vegna þeirra aðstæðna sem eru á markaði. Það sé alltaf erfitt að grípa til svona ráðstafana, en miðað við núverandi stöðu hafi ekki verið um annað að ræða.
Ekki náðist í forsvarsmenn Glitnis, Kaupþings eða Landsbankans í gærkvöldi.