Ákveðið hefur verið að hætta loðnuveiðum á hádegi á morgun. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, ákvað þetta nú síðdegis að tillögum Hafrannsóknastofnunar og verður reglugerð þessa efnis gefin út á morgun.
„Þetta er gífurlegt áfall fyrir þjóðarbúið, sjávarútvegsfyrirtæki, sjómenn og fiskverkafólk og bæjarfélög en það var ekki hægt annað en taka þessa ákvörðun í ljósi þess hve loðnustofninn hefur mælst lítill," sagði Einar við Morgunblaðið.
Í mælingum Hafrannsóknastofnunar undanfarnar vikur hefur mun minna mælst af kynþroska loðnu en gert var ráð fyrir samkvæmt framreikningum sem byggðir voru á mældum fjölda ungloðnu í nóvember 2006 og ráðgjöf stofnunarinnar um byrjunaraflamark í júní 2007 byggði á. Á grundvelli mælinga undanfarið er mat á stærð veiðistofns loðnu á bilinu 200-270 þúsund tonn. Stærð stofnsins er því langt undir þeirri stærð sem gildandi aflaregla gerir ráð fyrir að skilið sé eftir til hrygningar en það eru 400 þúsund tonn. Þess vegna lagði Hafrannsóknastofnunin til, að loðnuveiðar verði nú þegar stöðvaðar.
6-7 milljarða tekjutap fyrir stærstu fyrirtækin
Áætlað er að samanlegt tekjutap þriggja stærstu fyrirtækjanna í uppsjávarveiðum: Ísfélagsins, HB Granda og Síldarvinnslunnar, nemi 6-7 milljörðum króna miðað við síðustu vertíð sem þó varð léleg.
„Þetta er bara skipbrot fyrir fyrirtæki eins og okkur. Síldarvinnslan hefur verið með um 30% af loðnunni. Það eru á milli tveir og þrír milljarðar sem tapast í tekjum vegna þessa. Það vegur mjög þungt í afkomu fyrirtækisins, um þriðjung eða meira og í tekjuöflun starfsfólks okkar, sjómanna og fiskverkafólks. Loðnuvertíðin er tími uppgripa hjá þessu fólki og vegur mjög þungt í heildartekjuöflun þess,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Ekkert fyrirtæki ásamt tengdum aðilum á eins mikið undir loðnunni. Þá segir Gunnþór að ætla megi að þetta snerti beint afkomu 400 manna á Austurlandi.
Mikilvægt að menn haldi áfram að leita
„Þó veiðarnar verði stöðvaðar nú er mikilvægt að menn haldi áfram að leita. Gefi ekki upp vonina um að hún skili sér,“ segir Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda.
Á síðustu vertíð veiddu skip HB Granda 56.000 tonn, sem skiluðu 2,4 milljarða úitflutningstekjum. Nú er aflinn um 6.500 tonn. „Það er ljóst að tekjuskerðingin er alla vega um tveir milljarðar króna. Þessi vertíð er bara sýnishorn núna. Það eru ekki margir kostir aðrir en að horfa til næstu vertíðar og annarra fisktegunda og reyna að bíta á jaxlinn.
Það þarf væntanlega að skera niður einhvern kostnað á móti þessu, en menn horfa lengra fram á við en til einnar vertíðar. Menn eru vanir sveiflum í sjávarútvegi. Við erum heldur ekki búnir að gefa vertíðina upp á bátinn," sagði Eggert.
Mikil áhrif á mannlífið í Eyjum
„Stöðvun loðnuveiða þýðir verulegt tekjutap fyrir Ísfélagið, eða upp á um það bil tvo milljarða króna. Fyrir fyrirtækin þrjú í Vestmannaeyjum, sem eru í loðnunni, þýðir þetta samtals um þrjá til þrjá og hálfan milljarð í tekjutap," segir Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja.
Hann segir að þetta hafi því veruleg áhrif á mannlífið og allt starfsfólk fyrirtækisins, bæði sjómenn og starfsfólk í landi, bæði í Eyjum og á Þórshöfn.
„Það er ekkert smáræðis áfall að tekjur í bæjarfélaginu vegna loðnuveiða minnki milli ára um þrjá til þrjá og hálfan milljarð ofan á svipaða tekjuskerðingu vegna þorskniðurskurðarins. Samtals eru þetta líklega að minnsta kosti sex og hálfur milljarður króna hér í Vestmanneyjum,“ segir Ægir Páll.
Nánar verður rætt við forstjóra fyrirtækjanna þriggja í Morgunblaðinu á morgun.