Skákfélagið Hrókurinn ætlar að halda opið alþjóðlegt atskákmót í Djúpuvík í Árneshreppi á Ströndum, helgina 20.-22. júní í sumar. Mótið er haldið til minningar um Pál Gunnarsson, einn af stofnendum Hróksins. Teflt verður í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpuvík.
Páll Gunnarsson, sem lést árið 2006, tók þátt í stofnun Hróksins 1998 og tefldi flestar skákir allra liðsmanna félagsins á Íslandsmóti skákfélaga. Páll, sem ættaður var af Ströndum, var einn traustasti liðsmaður Hróksins og tók virkan þátt í skáklandnáminu á Grænlandi.