Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að engar ákvarðanir hafi verið teknar um að lækka opinberar álögur á eldsneyti. Hafa yrði það í huga, að hækkun eldsneytisverðs, sem kæmi utanfrá, væri í raun skattur á þjóðarbúið og ekki væri hægt að víkjast undan honum.
Geir var að svara fyrirspurn frá Guðjóni A. Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins sem sagði, að tekjur ríkisins ykjust með hækkandi eldsneytisverði.
Geir sagði, að reynt hefði verið í mörg ár að draga úr notkun eldsneytis hér á landi og horfið hefði verið frá þeirri leið að leggja vörugjald á eldsneyti sem hlutfall af grunnverði heldur væri það nú ákveðin krónutala á hvern lítra.
Ofan á það bættist síðan virðisaukaskattur, sem væri hlutfallsskattur og menn teldu að hann skapaði ríkissjóði meiri tekjur vegna þessara hækkana. Á þau rök hefði ríkisvaldið aldrei fallist vegna þess, að líkur væru til að menn drægju úr notkun eldsneytis við þessar aðstæður eða minnkuðu notkun á öðrum virðisaukaskattskyldum varningi.