Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að almennar mótvægisaðgerðir vegna þorskaflaniðurskurðar séu að koma til framkvæmda á þessu ári. Ljóst sé, að ef engar frekari loðnuveiðar verði eins og nú er útlit fyrir, verði stjórnvöld að taka það inn í myndina við endurskoðun mótvægisaðgerðanna enda væru gjörbreyttar aðstæður víða um land.
Geir var að svara fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni VG, sem vildi vita hvaða áhrif loðnuveiðistöðvun hefði á boðaðar mótvægisaðgerðir. Geir sagði, að allir vonuðu, að loðnan muni skila sér innan tíðar þótt hún sjáist ekki um þessar mundir. Loðnan væri dyntóttur fiskur og ástand á borð við þetta hafi komið upp áður.
Geir sagði ljóst, að gjörbreyttar aðstæður væru víða á landinu á þeim stöðum sem hafa reitt sig öðrum fremur á loðnuveiðar og huga verði að því ástandi.
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði á Alþingi, að loðnuveiðibannið kæmi í kjölfar tveggja mjög lélegra loðnuvertíða. Það væri hins vegar athyglisvert, að atvinnugreinin hefði lagað sig að þessu ástandi og búið til meira verðmæti úr minna hráefni.
Einar sagði, að mjög vel yrði fylgst með því, sem væri að gerast á miðunum. „Loðnan er brellinn stofn og hefur stundum dúkkað upp mjög skyndilega án þess að menn hafi átt von á því. Finnist meiri loðna, sem nægir til að gefa út loðnukvóta verður slíkur kvóti að sjálfsögðu gefinn út að nýju," sagði Einar.