Rót virðist komið á fasteignamarkaðinn

„Síminn hefur ekki stoppað hjá okkur síðan á mánudagsmorguninn. Fjöldinn allur af ungu fólki hefur haft samband við okkur og spurt hvernig það eigi að snúa sér varðandi íbúðarkaup. Við höfum því miður litlu getað svarað því,“ segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, en yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um niðurfellingu stimpilgjalda vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign virðist vera að koma talsverðu róti á fasteignamarkaðinn.

Þrátt fyrir að almenn ánægja ríki með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gagnrýna fasteignasalar þá óvissu sem ríki um framkvæmdina. „Það er mjög slæmt að þetta sé ekki fullmótað og komi ekki til framkvæmda strax. Þetta getur orðið til þess að fólk haldi að sér höndum varðandi fasteignakaup í þeirri von að þessi niðurfelling stimpilgjaldanna verði að veruleika fljótlega. Það er auðvitað ákaflega slæmt fyrir markaðinn allan, seljendur og þá kaupendur sem hugsanlega falla undir þessi ákvæði. Öll svona óvissa er mjög vond fyrir fólk,“ segir Grétar.

Erla Guðrún Gísladóttir er um þessar mundir að skoða íbúðir með kaup í huga. Það yrði hennar fyrsta íbúð. Hún segir að það sé vissulega óþægilegt að vita ekki hvenær stimpilgjöld verða felld niður. „Ef það væri ljóst að það ætti að afnema stimpilgjöld alveg á næstunni þá myndi maður líklega bíða. Hins vegar virðist allt óljóst um þessa niðurfellingu, þannig að maður er eiginlega í lausu lofti.“

Undir þetta tekur Grétar. „Ég er búinn að heyra í mjög mörgu ungu fóki sem segist ætla að bíða með íbúðarkaup þar til málin skýrast.“

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segir að vissulega eigi eftir að útfæra margt varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar. „Það er í sjálfu sér ekkert nýtt. Stóru atriðin eins og hækkun persónuafsláttar og skerðingarmörk barnabóta eru skýrt sett fram og tímasett. Nánari útfærsla á öðrum atriðum finnst mér algjört aukaatriði. Það er hins vegar alveg rétt að það er óheppilegt að það sé ekki tímasetning á því hvenær stimpilgjöld verða felld niður. Þetta getur verið mikið hagsmunamál fyrir fólk og maður getur ekki annað en hvatt fólk til þess að bíða aðeins með kaup þar til þetta tekur gildi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert