Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu mála í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum og hvetur ríkisstjórnina til að grípa til aðgerða tafarlaust. Þetta kemur fram í ályktun sem bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fundi sínum í kvöld.
Fram kemur í ályktuninni að sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra að stöðva loðnuveiðar á hádegi í dag muni þýða 3,8 milljarða tap fyrir sjávarútveginn í Vestmannaeyjum og bætist ofan á 3,6 milljarða tap vegna niðurskurðar á þorskkvóta.
Þá segir að Vestmannaeyjabær hafi þegar lagt fram ítarlegar tillögur um mótvægisaðgerðir sem stutt geti samfélagið í Eyjum almennt. Bæjarstjórn hvetur ríkisstjórn til að ganga lengra í þá átt sem þá var mörkuð.
„Eftir stendur að ef fram fer sem horfir blasir við að sjávarútvegsfyrirtæki verða fyrir slíkum skaða af völdum ákvörðunar um að stöðva loðnuveiðar að aðgerða er þörf gagnvart rekstrarumhverfi þeirra ef ekki á illa að fara,“ segir í ályktunni.
Í ljósi alvarleika málins leggur Vestmannaeyjabær því þunga áherslu á að ríkisvaldið grípi til eftirfarandi aðgerða tafarlaust:
1. Sjávarútvegur verði styrktur með því að aflétta íþyngjandi álögum.
2. Látið verði með öllu af handaflsaðgerðum í sjávarútvegi.
3. Opinber umræða um sjávarútveg verði af meiri ábyrgð en hingað til.
4. Fræðasvið sjávarútvegs verði styrkt og hafrannsóknir efldar.
5. Hafnaraðstaða byggð upp.
6. Hvalveiðar verði hafnar af auknum þunga.