Piper Cherokee flugvélin, sem hvarf af ratsjá um kl. 11:30 í dag, um 130 sjómílur suðsuðaustur af Hornafirði, er enn ófundin. Hætt hefur verið að leita úr lofti vegna myrkurs en varðskip Landhelgisgæslunnar er enn á svæðinu.
Ekkert hefur sést til flugmannsins
eða vélarinnar. Vélin er skráð í Bandaríkjunum og flugmaðurinn er
bandarískur.
Fokker flugvél Landhelgisæslunnar TF-SYN er komin til Reykjavíkur og TF-LIF, þyrla Gæslunnar, er væntanleg hvað og hverju.
Nimrod leitarflugvél breska flughersins yfirgaf leitarsvæðið um kl. 20:45 í kvöld, en hún hefur verið við leit í allan dag.
Aðstæður til leitar á svæðinu hafa verið erfiðar. Ölduhæð hefur verið mikil og þá hefur verið mjög hvasst.
Stefnt er að því að halda leitinni áfram á morgun, en ákvörðun um það verður tekin í fyrramálið.