Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur skrifað Seðlabankanum bréf og biður um hagfræðilega athugun á ýmsum þáttum efnahagslífsins, þar á meðal breytingum á fjármálamörkuðum, aðgerðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga og fjárlögum ársins 2008.
Guðni vísar í bréfi sínu til þess, að þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður hafi verið kveðið á um það í lögum að Seðlabanki Íslands láti aðilum vinnumarkaðarins og stjórnmálaflokkum, sem eiga fulltrúa á Alþingi, í té upplýsingar og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir, eftir því sem um semst.
Ber Guðni fyrir hönd þingflokks Framsóknarflokks fram eftirfarandi spurningar og óskar eftir svörum við þeim ásamt hagfræðilegum rökstuðningi og greinargerð, eigi síðar en 20. mars:
- Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að breytingar á fjármálamörkuðum hér heima fyrir og erlendis síðustu vikur hafi á tekjuöflun ríkisins?
- Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að nýloknir kjarasamningar hafi á þróun efnahagslífsins og tekjuöflun ríkisins?
- Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að nýkynntar tillögur ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjaramálum hafi á þróun efnahagslífsins, ríkisútgjöld og tekjuöflun ríkisins?
- Hvað telur Seðlabankinn mikið svigrúm til frekari útgjaldaaukningar hjá ríkissjóði í tengslum við þá kjarasamninga sem ólokið er?
- Hvort telur Seðlabankinn að fjárlög ársins 2008 hafi haft jákvæð eða neikvæð áhrif á það ójafnvægi sem við búum við í efnahagsmálum nú um stundir?
- Telur Seðlabankinn að ríkisstjórn Íslands hafi gengið nógu langt í þá átt að draga úr þenslu í samfélaginu?