Norrænu forsætisráðherrarnir hafa lagt fram fjölda tillagna til að takast á við hnattvæðinguna. Í næstu viku munu norrænu samstarfsráðherrarnir funda og meðal annars ræða fjárframlög til verkefna sem tengjast alþjóðavæðingunni.
„Það er mikilvægt að leggja áherslu á þá málaflokka sem forsætisráðherrarnir töldu mikilvægasta hvað varðar áskoranir vegna hnattvæðingarinnar. Það eru málaflokkar sem norrænu ríkin vinna betur saman að en sitt í hvoru lagi. Auk þess eru það málaflokkar sem stuðla að endurnýjun norræna samstarfsins og auka samkeppnishæfnina," segir Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í frétt frá Norðurlandaráði.
Fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2009 eru um 875 milljónir danskra króna og leggur framkvæmdastjórinn til að allir málaflokkar leggi sitt að mörkum til verkefna sem tengjast hnattvæðingunni. Um 60 milljónum danskra verður varið til verkefnanna.
„Það er mikilvægt að við gerum okkur einnig grein fyrir því að með því að ákveða verkefnin þurfum við einnig að forgangsraða. Ég hef lagt til að á næsta ári taki allir málaflokkar þátt í því að fjármagna þessi mikilvægu verkefni sem við ætlum að leggja áherslu á,“ segir Halldór Ásgrímsson.