Auglýsing frá rútufyrirtækinu Guðmundi Tyrfingssyni ehf. í dagblöðum hefur vakið athygli undanfarið. Þar er auglýst uppfærsla á öryggisbeltum í rútum fyrirtækisins, með notkun myndar af hálfberum og stæltum karlmanni við hlið spariklæddrar stúlku, bæði spennt í belti. Umferðarstofa tekur þátt í átakinu, en segist ósátt við auglýsinguna.
„Okkur brá þegar við sáum auglýsinguna,“ segir Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu. „Við höfum óskað eftir breytingu á henni, því að okkar mati þjónar hún ekki þeim tilgangi sem lagt var upp með. Fólk situr ekki bert í rútum, hvorki strákar né stelpur.“ Aðspurður hvort markmiðinu hafi ekki verið náð, að fanga athygli lesenda, sagði Sigurður: „Vafalaust, en fólk fær aðrar upplýsingar en þær sem við vildum leggja áherslu á og þar liggur hundurinn grafinn.“
Benedikt Guðmundsson er framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins og segist hæstánægður með auglýsinguna. „Við höfum fengið fín viðbrögð við henni. Að vísu er Umferðarstofa ósátt, en við munum hugsanlega breyta myndinni aðeins, við skoðum það eftir helgi.“ Auglýsingar sem innihalda bert kvenmannshold hafa fengið á sig harða gagnrýni að undanförnu, fyrir að hlutgera konur.