Ríkissjóður fær um einn milljarð aukalega í tekjur vegna hækkunar á bensín- og dísilolíuverði, sagði Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslyndra, á Alþingi í gær. Guðjón spurði forsætisráðherra hvort ekki væri eðlilegt að endurskoða álögur ríkisins á eldsneyti vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði en að nú þegar væru á fjárlögum áætlaðir 15 milljarðar króna í tekjur vegna vörugjalda af bensíni og olíu.
Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði engar ákvarðanir hafa verið teknar um að lækka gjaldtöku á eldsneyti og féllst ekki á útreikninga Guðjóns hvað varðaði auknar tekjur ríkissjóðs. Líkur væru á að fólk drægi annaðhvort úr notkun eldsneytis eða minnkaði notkun á öðrum virðisaukaskattsskyldum varningi. „Það er því einföldun á málinu að segja að ríkissjóður fái sjálfkrafa tekjuaukningu út á þessa hækkun olíuverðs,“ sagði Geir og bætti einnig við að umræddar tekjur rynnu að mestu leyti til vegauppbyggingar í landinu og að auki legði ríkissjóður talsvert meira fé í uppbyggingu vega. „Það verður að hafa það í huga að hækkun eldsneytisverðs, sem kemur utan frá [...] er í raun og veru skattur á þjóðarbúið og honum getum við ekki vikist undan þó að við höfum í mörg ár reynt að draga hér úr notkun eldsneytis með ýmsum hætti,“ sagði Geir jafnframt.