Síðasta skrefið að fullri inngöngu Íslands í NATO

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði á flokksráðsfundi síðdegis, að með varnarmálafrumvarpi, sem utanríkisráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi, sé verið að stíga síðasta skrefið að fullri inngöngu Íslands í NATO.

Steingrímur sagði, að þegar Ísland gekk í NATO hafi verið miðað við það, að hér á landi yrði ekki her á friðartímum.  Nú sé verið að lögbinda að hér verði með reglubundnu millibili herlið frá öðrum ríkjum á friðartímum.

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, sagði á flokksráðsfundinum, að Samfylkingin mælist nú sem stærsti flokkur landsins í skoðanakönnunum og hafi flotið í gegnum stjórnarsamstarfið með því að benda á Sjálfstæðisflokkinn þegar miður fer og baðað sig í nýjum ljóma ráðherradóms og valda án þess þó að taka ábyrgð á verkum ríkisstjórnarinnar.

„Á hverjum degi heyrir maður nú Samfylkingarfólk tala eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé höfuðandstæðingur flokksins og það er ekki laust við að maður spyrji: Heyrðu nú mig! Í krafti hvers er Geir Haarde forsætisráðherra? Með stuðningi hverra er Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra? Er virkilega hægt að vera svona stikkfrí í einu ríkisstjórnarsamstarfi?" sagði Katrín.

Hún sagði, að flokksfélagar verði að brýna sig í  baráttu gegn því, sem nefnt hafi verið alræði kapítalismans því hún snúist um að halda saman samfélagi og að íslenskt samfélag gliðni ekki og verði samfélag ríkra annars vegar og hinna hins vegar.

„Þegar munur manna er orðinn svo mikill að hægt er að tala um gliðnun í samfélagi er hætta á ferð. Hættan verður sú að við missum þá hagsmuni og þær hugsjónir sem sameina okkur sem þjóð, að við verðum ekki annað en hópur einstaklinga sem hver hugsar um sig. Ef ákveðnir hópar samfélagsins upplifa útilokun getur það valdið tjóni sem seint verður bætt."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert