Slökkviðiliðið á Egilsstöðum var kallað út miðmorguns eftir að tilkynning barst Neyðarlínu um reyk frá húsi við Miðgarð. Mikill viðbúnaður var af hálfu Brunavarna á Héraði sem mættu fullmannaðar á staðinn auk sjúkrabifreiðar og lögreglu. Ekki reyndist þó um eld né reyk að ræða í húsinu, heldur var húsráðandi í baði og lagði vatnsgufu út um glugga hússins. Veður var mjög stillt og kalt á Egilsstöðum í morgun.
Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri, segir tilkynningu hafa borist um reyk úr tvíbýlishúsi að Miðgarði. „Við ruddumst á staðinn en enginn reykur var þar þegar við komum. Þá héldum við að við hefðum farið á skakkan stað og könnuðum málið hjá Neyðarlínu, en það var ekki. Ég hafði samband við lögreglu og bað um að vel yrði farið ofan í þetta. Þetta var svokallað A-útkall vegna reyks í húsi snemma að morgni sem er alltaf ábending á slæmar aðstæður, hugsanlega fólk inni og þar fram eftir götunum. Við þorðum því ekki annað en að fara með allt okkar lið, sjúkrabíl og lögreglu en þetta reyndist ekki neitt."
Baldur segir fólk hafa verið í húsinu og mjög flatt hafi komið upp á það þegar liðið þusti að. Í ljós hefur komið að grandvar og árvökull íbúi í nærliggjandi húsi taldi þétta vatnsgufuna, sem barst úr baðherbergisgluggann,vera reyk og sér skylt að láta Neyðarlínu vita. Baldur segir viðkomandi hafa brugðist hárrétt við og ekki um neitt gabb að ræða.
Þá fór brunaviðvörunarkerfi í gang á Skriðuklaustri í morgun, en ekki reyndist um eld að ræða þegar að var gáð.