„Það eru hundrað og ellefu manns á götunni, “ segir Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Hann hefur nú lagt fram tillögu til félagsmálaráðuneytisins og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar auk heilbrigðisráðuneytisins og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, þess efnis að stofnaður verði vinnuhópur sem hafi með mál geðsjúkra fíkniefnaneytenda og annarra heimilislausra einstaklinga að gera.
„Í lögum er kveðið á um það að félagsmálaráðuneytið beri ábyrgð á þessum málaflokki, síðan er það á ábyrgð sveitarfélaganna að framfylgja þessari ábyrgð fyrir hönd ráðuneytisins. En þetta strandar á því að menn nái að koma sér saman um það hver skuli borga hvað.“
Stofnanir taka ekki við öllum
Stærstur hluti þeirra sem eru á götunni er geðsjúkur, en það er ekki einhlítt. Landspítalinn neitar jafnvel að taka við sumum þeirra því þeir séu svo erfiðir. Þannig er afeitrunardeild sem á að sinna þessum málaflokki sem neitar að taka við fólki sem er í neyslu, vegna þess að það er undir áhrifum. Síðan er því vísað frá Vogi en þeir segjast ekki vera með aðstöðu til að annast geðsjúka. Okkur vantar markviss úrræði fyrir þetta allra veikasta fólk. Því er úthýst í dag. Afleiðingarnar eru þær að fólk verður veikara og ef ekkert er að gert lætur það lífið.“
Hvað kostar að gera ekki neitt?
Sveinn segir að þeir sem eigi sögu um fíkniefnaneyslu að baki séu látnir gjalda fyrir það þegar komi að úthlutun húsnæðis, þrátt fyrir að hafa fyrir löngu lagt neysluna að baki. Hann leggur áherslu á það að heimilisleysi sé ávísun á geðveiki. Forvitnilegt sé að velta fyrir sér kostnaði þess að gera ekki neitt. „Hvað kosta handahófskenndar innlagnir á spítala sem skila takmörkuðu, hvað kostar það lögreglu að vera stöðugt að elta þessa einstaklinga uppi? Hvað kostar það varðandi þau afbrot sem tengjast þessu að vissu marki og hvað kostar það heilbrigði aðstandenda? Ég vil að þegar eitt kerfi skili einstaklingi af sér sé tryggt að næsta kerfi taki við, það gerist ekki í dag.“
Í hnotskurn
Geðhjálp áætlar að 111 manns séu heimilislausir í dag. 1,5 milljarðar eyrnamerktir úrlausn húsnæðislausra næstu árin en menn koma sér ekki saman um framkvæmd hennar.