Verið er að draga úr umsóknum um hreindýraveiðileyfi í húsnæði Þekkingarnets Austurlands á Egilsstöðum. Yfir fimmtíu manns eru mættir til að vera viðstaddir eystra og menn greinilega spenntir að sjá hvort heppnin verður með þeim.
Byrjað var að draga um veiðileyfi á svæði níu, sem er syðsta svæðið. Bjarni Pálsson hjá Umhverfisstofnun stjórnar útdrættinum.
3.137 umsóknir bárust um 1333 veiðileyfi. Af umsóknunum voru 99 úrskurðaðar ógildar, einkum vegna skorts á upplýsingum um B-skotvopnaréttindi viðkomandi umsækjenda. 50 gildar umsóknir komu frá erlendum veiðimönnum. 3038 umsóknir eru því gildar.
Unnt er að fylgjast með útdrættinum hjá Umhverfisstofnun í Reykjavík og á Akureyri gegnum fjarfundabúnað og að auki átti að senda útdráttinn beint út á netinu, en reyndist ekki unnt vegna tæknilegra örðugleika.
Veiðitímabil á hreindýr stendur frá 1. ágúst til 15. september. Kvótinn var aukinn um tæp tvö hundruð dýr frá fyrra ári. Talið er að hreindýrastofninn telji nú um 6500 dýr.