Eftirvænting vegna útdráttar hreindýraveiðileyfa

Mikil eftirvænting var á meðal þeirra sem sóttu um leyfi.
Mikil eftirvænting var á meðal þeirra sem sóttu um leyfi. Árvakur/Steinunn Ásmundsdóttir

Verið er að draga úr umsóknum um hreindýraveiðileyfi í húsnæði Þekkingarnets Austurlands á Egilsstöðum. Yfir fimmtíu manns eru mættir til að vera viðstaddir eystra og menn greinilega spenntir að sjá hvort heppnin verður með þeim.

Byrjað var að draga um veiðileyfi á svæði níu, sem er syðsta svæðið. Bjarni Pálsson hjá Umhverfisstofnun stjórnar útdrættinum.

3.137 umsóknir bárust um 1333 veiðileyfi. Af umsóknunum voru 99 úrskurðaðar ógildar, einkum vegna skorts á upplýsingum um B-skotvopnaréttindi viðkomandi umsækjenda. 50 gildar umsóknir komu frá erlendum veiðimönnum. 3038 umsóknir eru því gildar.

Unnt er að fylgjast með útdrættinum hjá Umhverfisstofnun í Reykjavík og á Akureyri gegnum fjarfundabúnað og að auki átti að senda útdráttinn beint út á netinu, en reyndist ekki unnt vegna tæknilegra örðugleika.

Veiðitímabil á hreindýr stendur frá 1. ágúst til 15. september. Kvótinn var aukinn um tæp tvö hundruð dýr frá fyrra ári. Talið er að hreindýrastofninn telji nú um 6500 dýr.

Nöfn heppinna veiðileyfishafa birtust á skjá í salnum.
Nöfn heppinna veiðileyfishafa birtust á skjá í salnum. Árvakur/Steinunn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert