Nesjavallavirkjun liggur undir grun

Nesjavallavirkjun.
Nesjavallavirkjun. AP

„Meðan við vitum ekki hvaðan kvikasilfrið í Þingvallaurriðanum er upprunnið, liggur Nesjavallavirkjun undir grun,“ segir Guðjón Atli Auðunsson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem hefur haft umsjón með styrksumsóknum nokkurra stofnana til að rannsaka betur hátt kvikasilfursmagn í stór- urriðanum í Þingvallavatni.

„Því má segja að Orkuveitunni renni blóð til skyldunnar að fá svör við þessu,“ bætir Guðjón við, en eftir að umsókn stofnananna til Orkusjóðs var neitað í tvígang skiluðu stofnanirnar umsókninni inn til Landsvirkjunar og munu brátt senda hana til Orkuveitu Reykjavíkur.

Stjórn Orkusjóðs tekur ákvörðun um hvaða umsóknir hljóta styrki úr sjóðnum, en Orkusjóður heyrir undir Orkustofnun sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið.

„Mér finnst þetta verðugt rannsóknarverkefni, og mun síður en svo beita mér gegn því að fé verði veitt til þess í framtíðinni,“ segir Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.

Engin tækifæri fengið

„Við viljum skoða hvort Þingvallavatn sé sérstakt á Íslandi og þá hvers vegna,“ segir Guðjón, sem nefnir þrjá þætti sem gætu skýrt kvikasilfursmagnið. Í fyrsta lagi gæti sú staðreynd að Ísland sé eldfjallaeyja skýrt kvikasilfursmagnið að hluta. Í öðru lagi sé vel þekkt að í gufu úr heitavatnsvirkjunum sé kvikasilfur, sem gæti þannig borist úr Nesjavallavirkjun í vatnið. Í þriðja lagi myndist gjarnan ákveðin tegund kvikasilfurs í uppistöðulónum sem mælist hátt í lífverum. Þá sé líklegt að staða Þingvallaurriðans í fæðukeðjunni hafi áhrif.

„Við höfum nær engin tækifæri fengið til að skoða efnabúskap íslenskra vatna. Skortur hefur verið á styrkjum og áhugi í vísindasamfélaginu lítill. Þá virðast Íslendingar almennt ekki hafa litið á mengun í vatni sem vandamál.“ hlynur@24stundir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert