Í ályktun, sem samþykkt var á flokksráðsfundi VG í dag, eru landsmenn hvattir til að hrinda atlögum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að almannaþjónustunni. Þá lýsir flokksráðið yfir þungum áhyggjum yfir stöðu efnahags- og atvinnumála og gagnrýnir andvaraleysi ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.
Í ályktun flokksráðsins segir, að áform um víðtæka einkavæðingu innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar, í menntakerfinu og á sviði samgangna séu alvarlegt tilræði við velferðarþjóðfélagið.
„Ráðherrar úr báðum stjórnarflokkunum eru farnir að taka opinberlega undir með samtökum atvinnurekenda og fjármagnseigenda um einkavæðingu almannaþjónustunnar," segir m.a. í ályktuninni.
Í ályktun um efnahags- og atvinnumál segir m.a., að til viðbótar þeirri alvarlegu stöðu sem við blasir í bankakerfinu og á verðbréfaþingi, og óvissunni um þróun gjaldeyris- og verðlagsmála næstu mánuðina, bætist svo áföll sem dunið hafa yfir í sjávarútvegi. Því miður berist langleiðina svipuð ótíðindi af málefnum landbúnaðarins, en þar stofni allt að 80% hækkun áburðarverðs, ásamt gríðarlegri hækkun á olíuverði, innfluttu kjarnfóðri og fleiri aðföngum, afkomu bænda og stöðugleika í innlendri búvöru-framleiðslu í verulega hættu.
Í ályktun um orkumál lýsir flokksráðsfundurinn yfir undrun sinni á fyrirhuguðum álversbyggingum í Helguvík og á Bakka. Fyrir kosningar hafi Samfylkingin boðað stóriðjuhlé með sínu „Fagra Íslandi”, en svo virðist sem það hafi verið orðin tóm.