„Bankarnir hafa verið djarfir í útrásinni og fjárfestingum erlendis, að sögn Geirs H. Haarde forsætisráðherra.
„Það hefur verið hluti af þeirra viðskiptamódeli, ef svo mætti segja, og við þær aðstæður sem komnar eru upp getur það skapað erfiðleika. En ég býst nú við því að flestar fjárfestingar bankanna erlendis hafi verið góðar í þeim skilningi að þær skili ávöxtun og þá eru þær ábyggilega góð söluvara ef á þarf að halda á nýjan leik. Sumir hafa sagt að þetta viðskiptamódel feli í sér ábyrgðarleysi en ég vil ekki taka mér það orð í munn. En menn hafa verið djarfir,“ segir Geir við sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Hann segist telja að það væri mjög heppilegt fyrir þjóðarbúskapinn, eins og horfurnar eru núna, að stórframkvæmdir á borð við Helguvík færu af stað og sama má segja um fyrirhugaðar stórframkvæmdir á Bakka við Húsavík sem að öllum líkindum yrðu tveimur árum síðar. Ekki sé því talað um að allt fari í gang samtímis. Vitað sé af fleiri hugsanlegum orkukaupendum, svo sem Alcan í Straumsvík, netþjónabúi á Keflavíkurflugvelli og fyrirtækjum sem vilji byggja upp starfsemi í Þorlákshöfn.
„Út frá sjónarmiðum um efnahagslegt jafnvægi, sem ríkisstjórninni ber að stefna að, verður að beita almennum aðgerðum til að stýra þessu, ekki banna einum að byggja en ekki öðrum.
Aðild að ESB er engin lausn á þeim vanda sem blasir við í efnahagslífinu, að sögn Geirs, vegna þess að það tæki mörg ár að undirbúa aðild að ESB og myntbandalaginu ef menn tækju stefnuna á það. Smæð krónunnar sem gjaldmiðils sé ókostur. „En samt ekki eins mikill ókostur og myndi fylgja ESB-aðild eins og sakir standa.“