Blaðaljósmyndarafélag Íslands valdi mynd Eggerts Jóhannessonar, sem starfað hefur á Morgunblaðinu, mynd ársins en árleg sýning félagsins var opnuð í dag í Gerðarsafni. Myndin sýnir Gunnar I. Birgisson bæjarstjóra gleðjast á sextugsafmæli sínu í Glaðheimum, reiðhöll Gusts í Kópavogi.
Í áliti dómnefndar segir að myndin skemmti ekki bara áhorfandanum heldur veki spurningar. „Fyndnar myndir eru ekki á hverju strái og sláandi pólitísk fyndin mynd er enn sjaldgæfari." Myndin var einnig valin skoplegasta mynd ársins.
Júlíus Sigurjónsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók fréttamynd ársins af fólki að ganga yfir aurskriðu, sem féll á þjóðveginn í Kollafirði aðfaranótt 13. september. Dómnefndin segir að Júlíus sé með á nótunum og þarna hafi fagmaður verið á harðahlaupum til að mynda óvæntan fréttaviðburð. Í dag sé sjaldgæft að ná að grípa slíkt augnablik og því eigi þessi mynd svo sannarlega skilið verðlaun í sínum flokki.Júlíus tók einnig myndina, sem valin var þjóðlegasta mynd ársins. Hún sýnir þá Stefán Eiríksson, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, og Sævar Ciesielski á bar í miðborg Reykjavíkur þegar Stefán fór á eftirlitsgöngu. Dómnefndin segir, að aðeins á Íslandi sjái maður lögreglustjóra brosmildan á bar á jólunum, heilsa vel þekktum afbrotamanni.
Eyþór Árnason tók landslagsmynd ársins. Dómnefnd segir að landslagsljósmyndun á Íslandi og almenningur þurfi svo sannarlega á nýrri og ferskri sýn að halda. Þessi mynd sé gott dæmi þess, snjöll og næm í senn. Kaldhæðnin sé sú, að svona sjáum við oft landslagið okkar í dag, þokukennt og óljóst út um glugga bíls á fleygiferð.
Hörður Sveinsson tók tímaritsmynd ársins af tónlistarmanninum Mugison. Dómnefnd segir, að mikið unnar myndir séu mjög áberandi í íslenskum tímaritum í dag. Þetta sé gott dæmi sem sameini viðfangsefnið og frumlega stafræna myndtækni og takist vel til. Vonandi verði skýrari línur dregnar á milli auglýsingaljósmyndunar og tímaritaljósmyndunar í framtíðinni.
Valgarður Gíslason tók portrettmynd ársins af Sigurði Árna Sigurðssyni, myndlistamanni. Dómnefnd segir, að um sé að ræða frumlegt og óvenjulegt portrett af listamanninum.
Íþróttamynd ársins tók Kristinn Magnússon af Orra Geirssyni, kraftlyftingamanni, gefa allt til að ná réttstöðulyftunni. Dómnefnd segir, að gífurleg áreynsla í heimi íþróttana leyni sér ekki og sé hér fönguð á kraftmikinn hátt. Það sem ekki sjáist á myndinni blasi í raun við manni og undirstriki á áhrifamikinn hátt hið mikla keppnisskap og viljastyrk.
Vilhelm Gunnarsson tók bestu myndina í flokknum daglegu lífi þegar tvö þúsund vatnsbyssueigendur felldu heimsmet í vatnsbyssuslag á landsmóti UMFÍ í Kópavogi í júlí. Dómnefnd segir að þetta sé frábær mynd sem sýni mikla gleði og fögnuð. Eftir að hafa skoðað yfir 1000 myndir þá sé ljóst, að íslensk fréttablöð virðist ekki hafa mikinn áhuga á að mynda daglegt líf. Mögulega sé ljósmyndararnir ófúsir að senda myndir í þennan flokk.Loks átti Brynjar Gunnarsson myndröð ársins, sem nefnist 66°12´97”N og fjallar um daglegt líf Pólverja í fiskiþorpi úti á landi. Um myndröðina segir, að í mörgum íslenskum sjávarþorpum séu innflytjendur næstum helmingur íbúanna og oft meirihluti vinnufærs fólks. Flestir innflytjendanna séu Pólverjar sem setjast að í þorpunum vegna þess að húsnæði þar er ódýrt og vegna þess að þeir bera umtalsvert meira úr býtum en í heimalandinu.
Anna kom til Íslands 6. mars 1998 og Jarek í september sama ár. Í Póllandi lærði Anna viðskiptafræði en Jarek er úr sveit. Þau kynntust á Suðureyri. Anna er í fæðingarorlofi og hugsar um soninn Piotr. Þar sem Jarek vinnur við beitingar og hefur sveigjanlegan vinnutíma á hann auðvelt með að vera heima og gæta sonarins á meðan Anna sinnir erindum. Fyrir eiga þau soninn Pawel sem er í leikskóla. Annað foreldri að minnsta kosti helmings barnanna á leikskólanum er af erlendum uppruna.
Dómnefnd segir, að myndröðin sé verðug heimild í yfirstandandi skráningu lífs í íslenskum þorpum á 21. öld. Vonandi að fréttablöð og tímarit á Íslandi veiti sögum sem þessari stuðning.
Dómnefndina skipuðu þeir Pétur Thomsen, Ragnar Th. Sigurðsson, Brooks Walker, Eggert Skúlason og Per Folkver, myndritstjóri Politiken í Danmörku. Alls bárust um 1600 myndir í forvalið og valdi dómnefndin rúmlega 200 myndir sem prýða veggi Gerðarsafns. Veitt eru peningaverðlaun fyrir alla flokka en Glitnir hefur styrkt Blaðaljósmyndarafélagið.
Sýningin á myndunum stendur yfir í Gerðarsafni frá og með 23. febrúar til 16. mars og er aðgangur ókeypis. Á neðri hæð safnsins verður Páll Stefánsson, ljósmyndari, með einkasýningu