Vill að hámarkið hækki

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson. Árvakur/G. Rúnar

Ferðamaður sem kemur hingað til lands má hafa með sér þrjú kíló af matvörum og vörur fyrir að hámarki 46 þúsund krónur.

„Ég tel að það eigi að leita leiða til að hækka hámörkin svo þau endurspegli raunveruleikann, þ.e. hvað geti talist eðlilegt að ferðamaður hafi með sér til landsins án þess að hann sé að flytja inn vörur í ábataskyni,“ segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.

„Það er stefna Samfylkingarinnar að það séu almennt ekki hömlur á innflutningi til landsins og yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að þetta verði lagað. Allar reglur eiga að vera sanngjarnar og þessi hámörk eru það ekki. Ég mun beita mér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að þeim verði breytt,“ segir viðskiptaráðherra.

Tollamál heyra undir fjármálaráðuneytið en ekki náðist í fjármálaráðherra vegna málsins. Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður hans, segir að ekki liggi fyrir að gera breytingar á hámörkunum. „Þetta er svo sem alltaf til skoðunar en síðan hámarkið var hækkað upp í 46 þúsund hefur verðgildi upphæðarinnar aukist umtalsvert vegna þess að krónan hefur styrkst. Það þarf að taka tillit til fleiri þátta en krónutölunnar,“ segir Böðvar.

Hjá tollstjóraembættinu í Reykjavík fengust þær upplýsingar að þrjú kílóin hefðu verið ákveðin fyrir mörgum árum. Upphæðin er endurskoðuð á nokkurra ára fresti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert