Ákvörðun síðar um borgarstjóra

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson ásamt Jórunni Frímannsdóttur, Júlíusi Vífli Invarssyni og …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson ásamt Jórunni Frímannsdóttur, Júlíusi Vífli Invarssyni og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Árvakur/Brynjar Gauti

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segir að hvað sig varði sé opið hver taki við embætti borgarstjóra af hálfu Sjálfstæðisflokksins í mars 2009. Borgarstjórnarflokkurinn mun ákveða borgarstjóraefnið í sameiningu þegar nær dregur. Borgarstjórnarflokkurinn hefur lýst yfir óskoruðum stuðningi við Vilhjálm.

Bæði Vilhjálmur og borgarstjórnarflokkurinn hafa sent frá sér yfirlýsingar í kjölfar fundar flokksins í dag. Yfirlýsing Vilhjálms er eftirfarandi:

„Hvað mig varðar er opið hver tekur við embætti borgarstjóra af hálfu Sjálfstæðisflokksins í mars 2009. Borgarstjórnarflokkurinn mun ákveða borgarstjóraefnið í sameiningu þegar nær dregur.

Í samráði við borgarstjórnarflokkinn og með stuðningi hans hef ég ákveðið að gegna áfram starfi oddvita borgarstjórnarflokksins og formanns borgarráðs. Borgarfulltrúar flokksins munu áfram vinna saman af heilum hug í þágu borgarbúa það sem eftir lifir kjörtímabilsins.  Ég mun leggja mig allan fram við að vinna með öllum borgarbúum eins og ég hef gert hingað til."

Yfirlýsing borgarstjórnarflokksins er eftirfarandi: 

„Borgarstjórnarflokkurinn lýsir yfir óskoruðum stuðningi við oddvita sinn, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, og meðfylgjandi yfirlýsingu hans.

Borgarstjórnarflokkurinn tekur undir það með Vilhjálmi, að ekki sé ástæða til að ákveða nú hver verði borgarstjóri eftir rúmt ár. Sú ákvörðun verður tekin af borgarstjórnarflokknum í sameiningu þegar nær dregur og með hagsmuni flokksins og borgarbúa að leiðarljósi."

Undir þetta skrifa allir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar flokksins að Vilhjálmi undanskyldum, þau Áslaug María Friðriksdóttir,  Kjartan Magnússon, Björn Gíslason, Kristján Guðmundsson, Bolli Thoroddsen, Marta Guðjónsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Ragnar Sær Ragnarsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Jórunn Ósk Frímannsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka