Maður var staðinn að því að brjóta rúðu með sleggju í skartgripaverslun við Ingólfstorg í Reykjavík í morgun.
Til mannsins sást í myndavélakerfi lögreglunnar og fóru lögreglumenn á vettvang. Þegar lögreglu bar var maðurinn enn í versluninni en hann hljóp á brott þegar lögreglubíll kom. Lögregla elti manninn sem komst undan í bíl með öðrum manni.
Nokkru síðar er lögreglu tilkynnt um bíl á ofsahraða í Skerjafirði. Lögregla fann svo bílinn mannlausan en sá til tveggja fótgangandi manna, sem hlupu á brott og köstuðu frá sér þýfinu þegar þeir sáu lögregluna nálgast.
Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að öllum líkindum búið að finna alla munina, sem teknir voru í versluninni en um var að ræða verðmæta skartgripi.