Styður yfirlýsingu Vilhjálms

Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir. Árvakur/Ásdís

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist styðja yfirlýsingu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, og telur að ákveðin niðurstaða sé komin í málið.

Vilhjálmur sagði í yfirlýsingu í dag að hvað sig varði sé opið hver taki við embætti borgarstjóra af hálfu Sjálfstæðisflokksins í mars 2009.

Borgarstjórnarflokkurinn mun ákveða borgarstjóraefnið í sameiningu þegar nær dregur. Hanna Birna sagði í fréttum Útvarpsins í dag, að hún muni að sjálfsögðu sækjast eftir borgarstjóraembættinu þegar þar að kemur.

Hanna Birna segist áður hafa sagt að hún muni virða og styðja ákvörðun Vilhjálms, hver sem hún verði.  „Nú liggur yfirlýsing hans fyrir og ég stend við orð mín og styð hana," sagði Hanna Birna.

Hanna Birna segir að fullur einhugur hafi verið í hópi borgarfulltrúa um að styðja yfirlýsingu Vilhjálms.

Í yfirlýsingu Vilhjálms segir að hann muni áfram gegna starfi oddvita borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og starfi formanns borgarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert