Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn ætlar að halda áfram sem oddviti flokksins en ætlar hins vegar ekki að taka við embætti borgarstjóra aftur. Þetta var fullyrt í fréttum Útvarpsins og sagt, að Vilhjálmur hefði tilkynnt Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, þessa ákvörðun sína.
Gert er ráð fyrir að Vilhjálmur greini borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins frá þessari ákvörðun í dag.
Fram kom í fréttum Útvarpsins, að stuðningsmenn Vilhjálms vilji að annað hvort taki Vilhjálmur við embættinu eða að boðað verði til prófkjörs og flokksmenn velji borgarstjóra.