Breytingar á tillögu duga ekki til

 Breytingar sem meirihlutinn í bæjarstjórn Álftaness gerði á tillögu til breytingar á aðalskipulagi 2005-2024 virðast ekki ætla að duga til að setja niður deilur um Skólaveg og Breiðumýri. Tillagan var samþykkt á hitafundi í bæjarstjórn á fimmtudag.

Gerður Björk Sveinsdóttir, forsvarsmaður hópsins Verndum börnin sem berst bæði gegn því að Skólavegur verði lagður og Breiðumýri lokað, segir að meirihluti Álftaneshreyfingarinnar í bæjarstjórn hafi aðeins gert örlitlar lagfæringar á sinni upphaflegu tillögu, þ.e. að loka Breiðumýri milli Suðurnesvegar og Birkiholts og leggja Skólaveg frá Breiðumýri að Norðurnesvegi.

Bæjarstjórnin hafi látið sveigja Skólaveginn aðeins frá Suðurtúni en með því sé í raun og veru ekkert komið til móts við sjónarmið þeirra 730 íbúa sem mótmæltu þessum breytingum en það er tæplega helmingur íbúa 18 ára og eldri. Þá hafi bæjarstjórnin gefið óljósar yfirlýsingar um að hún myndi koma enn frekar til móts við mótmæli íbúa en þær breytingar hafi hvergi verið kynntar.

Að sögn Gerðar mun umferð sem að öðrum kosti hefði farið um Breiðumýri fara um Skólaveg. Skólavegur verði því bæði aðkoma að skólanum og helsta leið íbúa á miðsvæði Álftaness út úr bæjarfélaginu. „Þú þarft ekki að eiga erindi á skólasvæðið til að þurfa að aka veginn,“ segir hún. Þá minnir hún á að í verðlaunatillögu, sem aðalskipulagið byggist á, hafi ekki verið gert ráð fyrir að loka Breiðumýri. Meirihluti bæjarstjórnar hafi látið í það skína að málið snúist um pólitík og sérhagsmuni íbúa í Suðurtúni. Það sé hins vegar ekki rétt. Málið snúist um öryggi barna. Gerður býr við þá götu. „Það er ekki rétt, þetta snýst um hagsmuni íbúanna,“ segir Gerður. „Við viljum ekki beina allri umferðinni meðfram skólanum. Þetta er leiksvæði barnanna.“

Sigurður Magnússon, bæjarstjóri á Álftanesi, segir að Skólavegur hafi ávallt verið inni í verðlaunatillögunni sem aðalskipulagið byggist á og hafi raunar ráðið mestu um að sú tillaga varð fyrir valinu á sínum tíma. Tillöguhöfundar hafi reyndar ekki gert ráð fyrir að loka Breiðumýri í annan endann en umferðarsérfræðingar hafi komist að þeirri niðurstöðu að of margir vegir tengdust inn á Suðurstrandarveg á stuttum kafla. Því hefði verið talið rétt að loka Breiðumýri.

Sigurður segir að til þess að koma til móts við íbúa sem mótmæltu þessum áformum hafi verið ákveðið að sveigja Skólaveg frá Suðurmýri. Þar að auki verði bætt við nýjum vegi sem muni liggja frá Suðurnesvegi að Skólavegi en vinnuheiti hans er Aðalgata. Sigurður segir að gert verði ráð fyrir þeim vegi á deiliskipulagi sem verið sé að vinna og gert sé ráð fyrir að hámarkshraði um veginn verði 15 km/klst. Deiliskipulagið er hins vegar ekki tilbúið og því hvergi til teikning af honum. Aðalgata og aðrar breytingar sem gerðar verða á skipulagi þeirra byggðar sem fyrirhugað er að reisa á miðsvæðinu, muni létta umferð af Skólavegi töluvert eða úr 3.000 bílum að hámarki í 2.400. Þá verði að hafa í huga að umferðin fari ekki endilega öll framhjá skólanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert