„Í samkomulagi F-listans og Sjálfstæðisflokksins er gert ráð fyrir því að ég taki stól borgarstjóra en því er ekki að leyna að í vetur hefur staðið mikill styr um mig. Sumt af því sem valdið hefur þessu á ég skilið en annað á ég alls ekki skilið og þetta hefur eðlilega verið mjög erfiður tími fyrir alla; flokkinn, mig persónulega og fjölskyldu mína og alla borgarfulltrúana og þeirra fjölskyldur.
Þetta hefur verið átakatími sem hefur reynt á okkur öll og ég hef stundum undrast það í öllu þessu moldviðri hvað maður hefur mikinn styrk. Ég hef hvorki brotnað né bognað en þetta hefur tekið mikið á og ég hef reynt að halda sjó allan þennan tíma,“ segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, en eins og fram kemur í yfirlýsingu sem Vilhjálmur sendi frá sér í gær hefur hann ákveðið að sitja áfram sem oddviti flokksins og formaður borgarráðs.
Ákvörðun um það hver verður borgarstjóri verður að sögn Vilhjálms tekin þegar nær dregur.
„Í ljósi alls þessa og þeirrar umræðu sem verið hefur og efasemda fólks um að ég eigi að setjast í stól borgarstjóra finnst mér eðlilegt að borgarstjórnarflokkurinn allur fái tækifæri til þess að ákveða í sameiningu hver verður borgarstjóri fyrir hönd flokksins. Þetta geri ég til að tryggja að allur hópurinn fái að koma að þessari ákvörðun á nýjan leik. Það var búið að ákveða fyrir fjórum vikum hver yrði borgarstjóri en ég vil að sá einstaklingur sem velst úr hópnum fái skýrt umboð alls borgarstjórnarflokksins til þess að setjast í stól borgarstjóra,“ segir Vilhjálmur spurður um ástæður ákvörðunar sinnar. Hann segist þeirrar skoðunar að ekki eigi að leita út fyrir núverandi borgarstjórnarflokk að borgarstjóraefni en hefur hann útilokað að taka við embættinu á nýjan leik sjálfur?
„Það mun koma í ljós hverjir það eru sem vilja setjast í þetta mikilvæga embætti. Þetta er krefjandi verkefni sem kallar á gríðarlega mikla vinnu. Við höfum á að skipa mörgu hæfileikaríku fólki og við ætlum okkur að sameinast um það, með hagsmuni flokksins að leiðarljósi, að það veljist í þetta hlutverk einstaklingur sem hefur traust og tiltrú og hefur þann áhuga á þessu sem borgarstjóraefni okkar þarf að hafa. Við munum vinna úr þessu sameiginlega og það er skylda okkar að komast að niðurstöðu sem þjónar hagsmunum borgarbúa sem best. Allir borgarfulltrúar styðja þessa ákvörðun mína auk þess sem borgarstjórnarflokkurinn hefur lýst yfir óskoruðum stuðningi við mig sem oddvita og tekur undir það með mér að ekki sé ástæða til þess núna að ákveða hver verður borgarstjóri eftir rúmt ár. Við munum þegar nær dregur taka sameiginlega ákvörðun um það hvert verður borgarstjóraefni okkar og gera það með góðum fyrirvara. Mér er ekki kunnugt um neinn flokk sem velur sér borgarstjóraefni með árs fyrirvara, það er yfirleitt gert í prófkjörum. Þannig var ég valinn í prófkjöri sem haldið var í nóvember 2005 og þá voru u.þ.b. sex mánuðir til kosninga. Það er því ekki verið að skapa neina óvissu nema síður sé.“