A-landslið karla í handknattleik hefur tekið þátt í tíu af síðustu ellefu stórmótum sem haldin hafa verið frá árinu 2000. Liðið missti aðeins af ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. Markmið Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) eru skýr í þessum efnum. Þau eru að vera með á öllum stórmótum, þ.e. Evrópu- og heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum og halda landsliðinu þar með í hópi 10 til 15 bestu landsliða heims eins og það hefur verið á þessari öld.
A-landslið karla er flaggskip HSÍ og um leið langstærsta og besta söluvaran. Því má í raun segja að rekstur HSÍ standi og falli að stórum hluta með þeirra staðreynd að það sé í fremstu röð. Að minnsta kosti er ljóst að án þess yrði rekstur HSÍ mun smærri í sniðum og þyngri en nú er raunin. Áætluð velta HSÍ fyrir yfirstandandi fjárhagsár nemur rúmum 100 milljónum kr. Ráðning nýs landsliðsþjálfara er því stórmál.
Dagana 30. og 31. maí og 1. júní nk. tekur landsliðið þátt í forkeppni fyrir Ólympíuleikana sem fara fram í Peking í ágúst í sumar. Forkeppnin fer fram í Wroclaw í Póllandi og auk heimamanna og Íslendinga taka Svíar og Argentíunumenn þátt. Allir leika við alla og þær tvær þjóðir sem hljóta flest stig út úr leikjunum tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum. Hinar tvær sitja. Hvernig sem allt verkast í Póllandi þá taka við ekki síður mikilvægir leikir við 8. og 15. júní. Þá mætir landsliðið Makedóníu í tveimur leikjum sem skera úr um hvor þjóðanna kemst á heimsmeistaramótið sem fram fer í Króatíu 16.- 31. janúar á næsta ári. Fyrri leikurinn verður ytra en sá síðari í Laugardalshöll og gilda samtals úrslit leikjanna tveggja. Hagstæð úrslit í viðureignunum við Makedóníu skipta HSÍ miklu máli fjárhagslega.
Þátttaka á Ólympíuleikum yrði síðan ákveðinn happdrættisvinningur sem hefði ekki aðeins mikil áhrif á sambandið heldur einnig alla þátttöku íslensku íþróttahreyfingarinnar á leikunum í Peking. Um leið styrktist íslenska landsliðsins verulega og það skyti væntanlega traustari stoðum undir rekstur HSÍ. Þátttaka á HM í Króatíu og á ólympíuleikunum gæti fært HSÍ a.m.k. vel á þriðja tug milljóna í tekjur.