Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag, að ríkisstjórnin hafi verið að taka sér ný stjórntæki, sem eigi að koma í veg fyrir að náttúruperlum verði kastað í forina, eins og hann orðaði það.
Össur var að svara spurningum Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns VG, í umræðu utan dagskrár um stóriðjuframkvæmdir. Vísaði Össur m.a. í stjórnarsáttmálann þar um að ekki yrði farið inn á óröskuð svæði og engin ný rannsóknarleyfi eða nýtingarleyfi gefin út fyrr en rammaáætlun liggur fyrir og sú áætlun mun ekki liggja fyrir fyrr en Alþingi hefur fengið tækifæri til að ræða hana.
Fram kom í máli Össurar, að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er að vinna hagrænt mat á áhrifum stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf. Sagði Össur, að stefnt væri að því að matið liggi fyrir 15. apríl.
Þá sagði Össur m.a., að Norðurál hafi óskað eftir því að gera sérstakan fjárfestingarsamning við ríkið vegna fyrirhugaðs álvers fyrirtækisins í Helguvík. Sagðist Össur ekki hafa séð ástæðu til að gera slíkan samning.
Einnig sagði Össur aðspurður, að ekkert nýtt samkomulag væri í undirbúningi við bandaríska fyrirtækið Alcoa og engar viðræður í gangi um slíkt en í gildi er samstarfsyfirlýsing frá 2006 sem gildir til 1. júlí á þessu ári.