Milli 50 og 60 manns mættu á fund Einars Kr. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra í Vestmannaeyjum í dag. Þarna voru mættir m.a. útgerðarmenn, skipstjórar og sjómenn og var skotið föstum skotum. Einn skipstjórinn sagði að verið væri að jarða loðnuveiðar og presturinn væri sjávarútvegsráðherra.
Sú ákvörðun Hafrannsóknastofnunar, að senda skip sín til hafnar um miðja síðustu viku, var harðlega gagnrýnd því hver dagur væri dýr. Kom fram að bara í Vestmannaeyjum er framleitt fyrir 60 til 100 milljónir króna á dag á meðan á loðnuvertíð stendur. Verðmæti loðnuafurða var 3,3 milljarðar í Eyjum í síðasta ári og því sé ekki lítið í húfi en heildarvelta í sjávarútvegi í Eyjum var 13 til 14 milljarðar á árinu.
Einar svaraði fullum hálsi og sagði að miðin hefðu verið vöktuð allan tímann og aldrei hefði meiri peningum og tíma verið varið í loðnuleit en einmitt í ár.
Einnig var talsverður hiti í mönnum þegar rætt var um mismunandi niðurstöður fiskifræðinga og skipstjóra á því sem kemur fram á mælitækjum, er munurinn allt að tuttugufaldur.
Sjávarútvegsráðherra sagðist því miður vera boðberi illra tíðinda en hann sagðist geta fullyrt að það væri fullur vilji stjórnmálamanna og vísindamanna að standa vel að verki. Benti hann m.a. á fjölgun leitardaga hjá rannsóknaskipum Hafrannsóknastofnunar.