Árið 2007 voru gerðar 2.876 breytingar á trúfélagaskráningu í þjóðskrá. Það svarar til þess að 0,9% landsmanna hafi skipt um trúfélag á árinu. Trúfélagabreytingum hefur heldur farið fjölgandi undanfarin þrjú ár og hafa þær ekki verið hlutfallslega fleiri síðan 1996 en þá skiptu nærri 1% landsmanna um trúfélag.
Flestar breytingar á trúfélagi má rekja til úrsagna úr þjóðkirkjunni, eða 1.685, samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.
Alls gengu 1.484 fleiri úr þjóðkirkjunni en þeir sem skráðu sig í hana á árinu. Árið áður voru brottskráðir úr þjóðkirkjunni 1.212 fleiri en nýskráðir og 851 árið 2005.
685 skráðu sig utan trúfélaga
Árið 2007 fjölgaði þeim sem skráðu sig utan trúfélaga um 685 manns. Mest fjölgun í trúfélagi varð í Kaþólsku kirkjunni, en í hana skráðu sig 525 fleiri en sögðu sig úr henni. Næst mest var fjölgunin í Fríkirkjunni í Reykjavík, eða um 445 manns. Í Fríkirkjunni í Hafnarfirði fjölgaði meðlimum um 185 manns og fjölgun varð um 106 manns í Ásatrúarfélaginu. Meðlimum í Búddistafélagi Íslands fjölgaði um 96 á árinu.