Skrifað undir samninga um gagnaver

Verne Holdings ehf. skrifaði í dag undir samninga við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar um raforku, gagnaflutninga, hús og lóð fyrir nýtt alþjóðlegt gagnaver við Keflavíkurflugvöll. Gagnaverið mun rísa á árinu og taka til starfa á fyrstu mánuðum næsta árs.

Fram kom á blaðamannafundi í dag, að áætlað er að heildarfjárfesting Verne í verkefninu verði um 20 milljarðar króna á fimm árum og að bein og óbein efnahagsleg áhrif innanlands nemi um 40 milljörðum króna. Ætla megi, að á næstu fjórum árum verði yfir 100 störf til vegna gagnaversins.

Gagnaverið mun hýsa tölvubúnað, netþjóna og gagnageymslur fyrir alþjóðlega stórnotendur, og útvega þeim örugga aðstöðu, orku og nettengingar. Meðal viðskipta gagnavera eru netveitur hvers konar, fjármálafyrirtæki, smásölufyrirtæki, erfðatæknifyrirtæki, stafræn kvikmyndaver og aðrir aðilar sem þurfa mikla reiknigetu, geymslurými fyrir gögn og öflugar nettengingar. Segir fyrirtækið, að gagnaver krefjast mikillar raforku og öflugrar kælingar en skili litlum sem engum koltvísýringi eða öðrum skaðlegum efnum út í andrúmsloftið.

Samningur Verne við Farice gerir ráð fyrir leigu á flutningsrými í sæstrengnum Farice-1 og hinum nýja Danice streng. Samtals mun Verne hafa aðgang að 160 gígabitum á sekúndu, eða 80 gígabitum á hvorum streng. Til samanburðar nota allir landsmenn, fólk og fyrirtæki, um þessar mundir tæpa 4 gígabita á sekúndu.

Verne mun tengja saman endapunkta strengjanna í London og Amsterdam og búa þannig til örugga hringtengingu til tveggja stærstu netmiðstöðva Evrópu. Tilkoma Danice strengsins mun auka áreiðanleika og flutningsgetu nettengingar landsmanna verulega.

Orkusamningur Verne við Landsvirkjun gerir ráð fyrir skuldbindingu félagsins til að kaupa raforku í stighækkandi magni upp að 25 MW árið 2012. Það er um fimmtungur af því sem Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga notar. Jafnframt hefur Verne rétt til að panta allt að 25 MW í viðbót sem Landsvirkjun afgreiðir innan tiltekinna tímamarka.

Í tilkynningu frá Verne segir, að viðskiptavinir félagsins sjái sér hag í að hafa aðgang að endurnýjanlegri orku á stöðugu verðlagi til langs tíma. Orkuskortur sé nú á þéttbýlissvæðum beggja vegna Atlantshafsins og orkuverð bæði hátt og sveiflukennt. Þá sé sú orka yfirleitt framleidd með kolefniseldsneyti en á sama tíma hafi mörg stórfyrirtæki sett sér markmið um koltvísýringsjöfnun í starfsemi sinni.

Verne kaupir tvö stálgrindarhús, 10.000 og 13.000 fermetra, af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, ásamt smærri eignum. Þá eru stækkunarmöguleikar á lóð til byggingar tveggja húsa til viðbótar. Í húsin verða sett öflug kæli- og varaaflskerfi auk upphækkaðs gólfs. Með notkun kalds vatns og lofts úr umhverfi má spara verulega raforku sem annars færi til kælingar og er það einn af þeim þáttum sem gera gagnaver Verne óvenju hagkvæmt í rekstri.

Verne Holdings ehf. er í eigu fjárfestingarfélagsins Novator og General Catalyst Partners. Framkvæmdastjóri starfseminnar á Íslandi er Þorvaldur Sigurðsson.

Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður Verne, kynnir samningana í dag.
Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður Verne, kynnir samningana í dag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka