Forstöðumaður skíðasvæðis Fjarðarbyggðar í Oddsskarði hefur óskað eftir því að Seyðisfjarðakaupstaður hætti að kalla skíðasvæði bæjarbúa í Stafdal Konung austfirsku Alpanna í símsvarakveðju skíðasvæðisins.
Ástæðan er sú að skíðasvæði Fjarðabyggðar hefur einkaleyfi á að nota heitið Austfirsku Alparnir um skíðasvæði sveitarfélagsins.
„Þegar ég fékk símhringinguna frá þeim hélt ég að þetta væri bara eitthvað grín, því mér fannst þetta alveg meinfyndið,“ segir Einar Bragi Bragason, formaður skíðadeildar Hugins á Seyðisfirði. „Ég var vinsamlegast beðinn um að hætta að kalla skíðasvæðið okkar Konung austfirsku Alpanna í símsvarakveðjunni, annars myndi lögfræðingur þeirra hafa samband við okkur því þeir hefðu einkaleyfi á Austfirsku Ölpunum. Ég hreinlega trúði því ekki að þeir væru að láta svona húmor fara í taugarnar á sér.“
Seyðfirðingar urðu við beiðni Fjarðarbyggðar og kalla nú skíðasvæðið ýmist Konung austfirsku tindanna eða skíðasvæði allra landsmanna í símsvarakveðju skíðasvæðisins.