Barði vagninn að utan og jós svívirðingum yfir bílstjórann

María Ellen Guðmundsdóttir
María Ellen Guðmundsdóttir Árvakur/RAX

„Bíllinn er laminn að utan sundur og saman og einhver ungur maður, sem ég vissi ekkert hver var, kemur að glugganum og öskrar á mig að ég skuli opna. Ég sagði að mér dytti það ekki í hug. En hann sér að það er smárifa á glugganum þannig að hann stingur hendinni þar inn og rífur upp gluggann. Síðan fæ ég bara yfir mig einhverjar þær almestu svívirðingar sem ég hef heyrt. Hann hótaði mér lífláti og klykkti út með því að segja að ef hann sæi mig á ferðinni um kvöldið myndi hann ganga frá mér.“

Þannig lýsir María Ellen Guðmundsdóttir strætisvagnastjóri hótunum sem hún varð fyrir af hálfu manns sem virðist hafa verið farþegi í bíl sem hafði nokkru áður farið fram úr strætisvagninum sem hún ók. María hefur kært manninn til lögreglu fyrir líflátshótanir.

Aðdragandinn að þessu atviki var sá að María hafði stöðvað strætisvagninn, leið 3, við stoppistöð sem heitir Gerðin og er á Miklubraut.

Maríu var skiljanlega brugðið og bað stjórnstöð Strætó um að óska eftir að lögregla yrði send á staðinn. Þessu hefði lögregla neitað og sagt að ekkert væri gert í svona málum nema búið væri að leggja fram skriflega kæru. „Sem er svolítið undarlegt því þarna er ég búin að fá morðhótun og það er bara allt í lagi!“ sagði María. Þá hefði hún ekki haft tök á því að skila inn kæru enda enn í vinnunni.

Lögregluþjónarnir hefðu reyndar verið afar indælir og í ljósi aðstæðna ákveðið að sekta hana ekki. Þeim tókst einnig að hafa uppi á manninum sem hótaði Maríu og samkvæmt því sem hún hefur heyrt bar hann því við að hafa bara orðið mjög reiður og ekkert meint með hótunum um líflát. María gaf lítið fyrir þessar skýringar mannsins.

Þá sagði hún allt of algengt að ökumenn vissu ekki af þeim reglum sem giltu um akstur strætisvagna út af biðstöðvum.

Í umferðarlögum er eftirfarandi ákvæði um hvernig ökumenn skulu haga sér þegar hópbifreið, þ. á m. strætó, gefur stefnuljós og hyggst aka út af biðstöð:
„Ökumaður, sem í þéttbýli nálgast biðstöð þar sem hópbifreið hefur numið staðar, skal, ef ökumaður hennar hefur gefið merki um að hann ætli að aka af stað, draga úr hraða og, ef nauðsyn ber til, nema staðar þannig að hópbifreiðin geti ekið frá biðstöðinni. Ökumaður hópbifreiðarinnar skal eftir sem áður hafa sérstaka aðgát til að draga úr hættu.“ 
 Ef um merkta skólabifreið er að ræða eru ökumenn skuldbundnir til að sýna sérstaka aðgát.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert