Hafrannsóknunarstofnun telur brýnt að fjárveitingar til stofnunarinnar séu aukin í ljósi breyttra aðstæðna. Núverandi fjármagn veitir lítið svigrúm til aukinna rannsókna. Loðnubann og minnkun þorskafla eru áminning um þörfina.
Þrátt fyrir að stofnunin fái nú um 1,4 milljarða á ári þá fer bróðurpartur þeirra í reglubundna vöktun á hafinu og brýnustu ráðgjöf um nýtingu og vernd stofna. Stofnunin segir, að afar lítið svigrúm sé fyrir þær auknu rannsóknir sem breyttar aðstæður í hafinu umhverfis landið krefjist. Langtímaáætlun um rannsóknir og eflingu starfseminnar var gerð fyrir nokkrum árum en hún hefur ekki gengið fram nema að litlu leyti.
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnuna, segir að þau tengsl fiskistofna, sem stofnunin byggir á í spám sínum, hafi riðlast á undanförnum árum og margir óvissuþættir hafi skapast við mat á stofni, þróun og framvindu. Það sé því brýnt að efla grunnvinnu eins mikið og hægt er, bæta þurfi við starfsfólki og efla starfsemina almennt.
Rannsóknarskipin tvö, Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson, eru dýr í rekstri og núna er hvort skip um sig innan við tvö hundruð daga úti á ári. Segir Jóhann að helst þyrftu skipin að vera að lágmarki 250 daga úti. Þrátt fyrir að fjármagn Hafró hafi aukist aðeins undanfarin ár þá hefur sú hækkun eingöngu haldið í við kostnaðaraukningu, að sögn Jóhanns. Hækkað olíuverð hafi t.d komið niður á stofnuninni eins og öðrum sem reka skip.
Brátt fer af stað vinna vegna fjárlaga næsta árs og segir Jóhann að stofnunin muni verða í viðræðum við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið vegna framtíðarverkefna. Skilningur sé fyrir hendi hjá ráðuneytinu og því séu þeir vongóðir.
Jóhann segir að það sé vissulega kostnaðarsamt að reka hafrannsóknir en það sé nokkuð ljóst að ef við viljum að okkur farnist vel í umgengni við þessa auðlind sem hafið er þá þurfi að verja umtalsverðum fjármunum í ýmsa þætti til að tryggja það. Þá ekki síst þegar verið er að fullnýta stofnana eins og gert er í dag og jafnvel ofnýta. Þá þarf þekkingstigið að vera nákvæmt svo ekki fari illa," segir Jóhann að lokum.