Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, forsetafrú. heimsækja Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit á morgun en Hrafnagilsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2007 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun og farsælu samhengi í fræðslustarfi.
Fulltrúar nemenda, skólastjóri og kennarar Hrafnagilsskóla taka á móti forsetahjónunum kl. 9 í fyrramálið og kynna skólastarfið. Í kjölfarið heimsækja forsetahjón kennslustofur, kynna sér kennsluhætti sem og aðbúnað og viðhorf nemenda.
Kl. 11 verður sérstök samverustund á sal skólans þar sem Ólafur Ragnar mun ávarpa nemendur og svara spurningum þeirra. Nemendur munu flytja tónlist og önnur atriði. Áætlað er að heimsókninni ljúki kl. 12.