Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hrósaði Íslendingum sérstaklega fyrir framlag þeirra til friðargæslunnar í Afganistan á fundi þeirra Geirs H. Haarde, forsætisráðherra í höfuðstöðvum NATO í Brussel fyrir stundu.
Framkvæmdastjórinn sagðist hafa verið í Afganistan í síðustu viku og kynnst störfum íslensku friðargæsluliðanna af eigin raun. Hann benti á að íslenska friðargæslusveitin teldi 13 manns sem væri mikið miðað við höfðatölu.
„Ísland stendur sig mjög vel," sagði de Hoop Scheffer.
Geir sagði að loknum fundinum, að hann væri mjög ánægður með hvernig mál hefðu þróast varðandi varnarmál Íslands og að aðildarríki NATO sjái um lofthelgiseftirlit á Íslandi.
Hann sagði einnig, að þeir de Hoop Scheffer hefðu rætt nýjar hugmyndir um hlutverk NATO á norðurslóðum.