Íslenskri fjölskyldu sem ætlaði að bóka flug með bandarísku flugfélagi milli borga í Bandaríkjunum á dögunum og borga með krítarkorti brá í brún þegar það reyndist ekki hægt. Það hafði hins vegar reynst auðvelt hjá viðkomandi flugfélagi þar til fyrir um það bil ári.
„Þetta er mjög algengt hjá amerískum fyrirtækjum. Þau hafa rétt á að segja nei en ég hef ekki hugmynd um hvers vegna sagt er nei við íslenskum kortum,“ segir Lilja Ragnarsdóttir hjá Valitor. Fjölskyldan sem um ræðir gat hins vegar bókað og greitt fyrir ferðirnar innan Bandaríkjanna með íslenska krítarkortinu hjá söluskrifstofu Icelandair hér á landi. Þá lagðist hins vegar þjónustugjald ofan á verðið fyrir hvern farmiða. „Þetta er af því að Icelandair tekur við kortinu og ábyrgist þar með greiðsluna,“ útskýrir Lilja.