Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson er nú við loðnumælingar rétt vestan við Vík í Mýrdal. „Hún er komin þangað gangan og við erum að mæla,“ sagði Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri í samtali við mbl.is nú í kvöld. Hann segist ekki geta sagt til um það hvenær mælingunum muni ljúka.
„Það eru lóðningar úti í Reynisdýpinu sem við erum búnir að mæla að mestu leiti. En við eigum eftir svolítið hér fyrir austan okkur. Þannig að mælingar eru ekki búnar enn,“ segir Sveinn.
Aðspurður segir hann mælingarnar hafa gengið ágætlega fyrir sig eftir að veður fór að lægja. „Þetta er allt í sómanum.“