Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á því hvað gerðist þegar Annþóri Karlssyni tókst að strjúka úr varðhaldi lauk um helgina. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, hefur sent dóms- og kirkjumálaráðuneytinu greinargerð.
Stefán segir að í greinargerðinni komi fram líkt og áður hafi verið skýrt frá, að ekki hafi verið farið að verklagsreglum við móttöku og eftirlit fangans og það hafi fyrst og fremst verið það sem hafi brugðist.
Segir Stefán að gripið hafi verið til ákveðinna aðgerða, bæði gagnvart þeim starfsmönnum sem áttu í hlut og öðrum, skýrar reglur gildi og farið hafi verið yfir þær. Þá segir Stefán að tryggja þurfi fullnægjandi upplýsingar um fyrirkomulag og framkvæmd vistunar þegar tekið sé á móti föngum. Þetta segir Stefán ekki hafa hafa verið raunina í viðkomandi tilviki, en auk þess hafi ekki verið gengið með fullnægjandi hætti eftir upplýsingunum.
Annþór hefur verið í gæsluvarðhaldi í tengslum við fíkniefnamál, en hann hafði komið inn til vistunar í fangageymslun lögreglunnar við Hverfisgötu í Reykjavík að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum og fíkniefnadeildar ríkislögreglustjóra.
Þar braut hann sér leið út um glugga og notaði kaðalspotta sem hann komst yfir til að komast af annarri hæð niður á götu. Annþór var svo handtekinn aftur sama dag eftir umfangsmikla leit. Hann var sama kvöld úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald, og er nú í fangelsinu við Litla Hraun.