Dæmdur til greiðslu miskabóta fyrir ummæli á bloggi

Árvakur/ÞÖK

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur til greiðslu miskabóta að upphæð 300.000 krónur fyrir ummæli sem hann viðhafði á bloggi sínu. Einnig var honum gert að útmá ummælin af vefsvæðinu og birta þar forsendur og dómsorð dómsins. Þetta mun vera fyrsti dómur af þessu tagi um bloggskrif.

Þá voru ummælin dæmd dauð og ómerk og ákærða gert að greiða stefnandanum hálfa milljón króna í málskostnað.

Stefnandi greindi frá því að þrátt fyrir ítrekuð tilmæli bæði af sinni  hálfu og stjórnenda bloggsvæðisins blog.is hafi stefndi ekki fjarlægt ummælin sem málið var höfðað út af. Því hafi ekki verið annar kostur en fara í mál.

Í niðurstöðu dómsins segir að óumdeilt sé að stefndi væri „höfundur þeirra skrifa þar sem umdeild ummæli birtust og ber hann ábyrgð á þeim.“ Ummælin um stefnandi væru ærumeiðandi, óviðurkvæmileg og tilhæfulaus og til þess fallin að sverta ímynd hans.

Teljast þau varða við 235. gr. laga nr. 19/1940.

Tildrög málsins voru þau, að í aðdraganda þingkosninganna á fyrri hluta síðasta árs skrifaði Gaukur Úlfarsson á bloggi sínu ummæli um Ómar R. Valdimarsson.

Sagði Gaukur m.a. að Ómar væri „Aðal Rasisti Bloggheima.“ Einnig sagði hann: „Nú hef ég fundið einn til, svæsnari en hinir lagðis saman, talsmann Impreglio (sic) á Íslandi,“ og: „Ég mæli því með því að þið ágæta fólk látið í ykkur heyra á kerfinu hans svo að útlendinga hatur hans standi þar ekki óhaggað.“ Voru þessi ummæli dæmd dauð og ómerk.

Einnig sagði: „Sem betur fer skapaði ég mér vinnu þar sem ég þarf ekki að svara fyrir alþjóðlegt glæpagengi í fjölmiðlum.“ Dómurinn féllst ekki á kröfu um ómerkingu þessara ummæla.

Dómurinn féllst jafnframt á kröfu Ómars um að Gaukur skuli birta dómsniðurstöðuna á blogginu sínu, og byggir sú niðurstaða á ákvæði laga frá 1956 um prentrétt. Ákvæðið taki til birtingar efnis í blöðum eða tímaritum en ekki til efnis er birt sé á vefsíðum.

„Ekki er til að dreifa lagaákvæðum um slík tilvik. Telja verður að efnislega sé um sambærileg tilvik að ræða enda staðreynd að mörg dagblöð eru gefin út á vefmiðlum,“ segir í dómnum.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka