Skilorðsbundið fangelsi fyrir að hóta lögreglu

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt konu á fertugsaldri í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og 160 þúsund króna sekt  og svipt hana ökuréttindum í ár fyrir ölvunarakstur og brot gegn valdstjórninni. Konan hótaði lögreglumönnum og sjúkraflutningamönnum lífláti og sló í andlit lögreglumanns og hrækti á hann þegar reynt var að taka úr henni þvagsýni.

Mál konunnar hefur vakið talsverða athygli en þvagsýni var tekið úr konunni gegn vilja hennar á á lögreglustöðinni á Selfossi í mars á síðasta ári. Konan kærði í kjölfarið lögregluna á Selfossi  fyrir kynferðislegt ofbeldi.

Konan var ákærð fyrir að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar hún ók bíl frá Hvolsvelli vestur Suðurlandsveg þar til hún missti stjórn á bílnum og hafnaði utan vegar á móts við Þingborg.

Þá var konan ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa viðhaft hótanir í garð lögreglumanna  og sjúkraflutningsmanna. Hótaði konan fólkinu lífláti, sagðist m.a. myndi slíta höfuðið af börnum þeirra og rífa legið úr lögreglukonu.

Þá var konan ákærð fyrir að slá einn lögreglumann í andlitið og hrækja á hann þegar verið var að taka úr henni þvagsýni.

Konan játaði að hafa ekið bílnum en neitaði að hafa verið undir áhrifum áfengis; hún sagðist hafa drukkið tvö rauðvínsglös með mat um tveimur tímum áður. Hún sagðist hins vegar hafa fengið sopa af einhverjum vökva hjá einhverjum vegfarendum eftir óhappið. Áfengismagn í blóði konunnar mældist 1,43 prómill.

Þá neitaði hún að hafa hótað eða veist að lögreglumönnunum en sagðist hafa verið í sturlunarástandi. 

Dómurinn taldi hafið yfir allan skynsamlegan vafa að konan  hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn og sakfelldi hana því fyrir ölvunarakstur. Þá taldi dómurinn að lögfull sönnun hefði verið færð fram fyrir brotum konunnar gegn valdstjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka