„Stemning“ fyrir stroki á leikskólum

„Fólk hefur fullan rétt á að leita læknis og það er þá læknanna að gefa ráð. En hitt er svo annað að við vissum af því að það hefur greinilega verið einhver stemning í leikskólum að fólk eigi að fara með börn í próf,“ segir Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, spurður um ummæli yfirlæknis á heilsugæslustöðinni í Árbæ í Morgunblaðinu í gær þess efnis að allt of mikið væri um að tekin væru stroksýni vegna gruns um streptókokkasýkingu.

Haraldur segir að í janúar hafi verið sett tilkynning á heimasíðu landlæknisembættisins þar sem m.a. kom fram að um 20% heilbrigðra einstaklinga í samfélaginu eru með streptókokka í hálsi án þess að þeir valdi sýkingu. „Þessa einstaklinga þarf ekki að meðhöndla með sýklalyfjum og lítil hætta er á að þeir smiti aðra,“ segir í tilkynningunni. „Þetta eru svokallaðir einkennalausir berar. Því skal forðast að taka hálsstrok í ræktun eða hraðgreiningarpróf hjá einstaklingi sem ekki er með merki um hálsbólgu við skoðun.“

Nokkur aukning varð á streptókokkasýkingum í hálsi í lok síðasta árs. Spurður hvort ekki sé eðlilegt að foreldrar séu á varðbergi svarar Haraldur því að það kunni að vera en bendir á að aukningin geti stafað af því að fleiri fari í próf en áður. „Við höfum heyrt að kollegum okkar [á heilsugæslustöðvum] finnst fólk koma af litlu tilefni með börnin sín og að það hafi verið hvatt til þess, t.d. á leikskólum,“ segir Haraldur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka