Tekist á um skattamál á Alþingi

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. Árvakur/Golli

Þingmenn tókust á um skattamál í byrjun þingfundar á Alþingi. Gerðu þingmenn Sjálfstæðisflokks harða hríð að VG fyrir þá afstöðu, sem birtist í ályktun flokksráðsfundar til fyrirhugaðra skattalækkana stjórnvalda og vöktu m.a. athygli á nýrri bók, sem fjallar um árangur af skattalækkunum. 

Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokks, hóf umræðuna og vildi vita hvort það væri ekki rétt skilið að VG væri eindregið á móti því að lækka skatta á fyrirtæki, eins og ríkisstjórnin hefur boðað að gert verði.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði, að flokkurinn teldi að svigrúm til skattalækkana ætti að nýtast lágtekjufólki fyrst og fremst. Þrátt fyrir boðaða hækkun á skattleysismörkum vantaði mikið upp á að bætt væri skerðing undanfarinna ára. Þá væri tekjuskattur fyrirtækja sá næstlægsti sem fyrirfinnst innan OECD eftir að skattþrepið hefur verið lækkað úr 18 í 15%.

„Vinstrihreyfingin - grænt framboð er ekki nýfrjálshyggjuflokkur. Við trúum ekki á hagfræði Chicagoháskólans heldur á öflugt félagslegt samábyrgt velferðarkerfi og til að standa straum af því þarf tekjur," sagði Steingrímur.

Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að enginn sannleikur væri í því, sem margir héldu fram, að lægri skattálögur á ríkissjóð þýddu minni tekjur ríkissjóðs.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að í heimi VG mætti aldrei lækka skatta, það væru aldrei réttu skattarnir og það mætti alls ekki gera það núna. „Þeir skilja ekki samhengið. Þeir hreinlega fatta það ekki, að að fyrirtækin skapa verðmætin og borga fólkinu laun." sagði Ragnheiður Elín.

Steingrímur sagði, að það væri engu líklegra en komin væri þjóðhátíð hjá sjálfstæðismönnum þegar út kæmi  skattalækkanabiblía  í ritstjórn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hann sagði að sjálfstæðismenn vildu lækka skatta á stóreignafólki, hátekjufólki, gróðafyrirtækjum og þeim sem hafa mestar fjármagnstekjur.

„Það skyldi nú ekki vera, að í staðinn komi komugjöld, sjúklingaskattar og lágtekjufólk er skilið eftir með alltof þunga skattbyrði. Og svo kemur klisjan um að tekjurnar aukist með því að lækka prósentuna. Hvað koma fyrirtækin til með að borga mikið þegar skattprósentan verður núll? Það á ekki að bera hlutina á borð fyrir fólk, allra síst kjósendur eins og þeir séu kjánar."

Fram kom hjá Helga Hjörvari, þingmanni Samfylkingarinnar, að ekki væri hægt að halda áfram að lækka skatta fyrr en vextir fara að lækka hér á landi. Því væri mikilvægt að vaxtalækkunarferli Seðlabankans fari að hefjast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert