Bæjarskrifstofan: Starfsfólk á flótta

Sveitarfélagið Álftanes.
Sveitarfélagið Álftanes. mbl.is/RAX

Alls hafa fimm starfsmenn hætt störfum á bæjarskrifstofu Álftaness á tæpu ári, eða frá því í maí á síðasta ári. Þar starfa alla jafna tíu manns í heilum og hálfum stöðugildum, að meðtöldum bæjarstjóranum Sigurði Magnússyni sem tók við embætti í maí 2006.

Sigurður var efsti maður á lista Álftaneshreyfingarinnar svokölluðu sem kom Sjálfstæðisfélagi Álftaness frá völdum í síðustu sveitarstjórnarkosningum, en félagið hafði þá setið í meirihlutastjórn sveitarfélagsins í tuttugu ár, eða frá árinu 1986.

Fleira starfsfólk íhugar stöðu sína

Samkvæmt heimildum 24 stunda má rekja flótta starfsfólksins með beinum eða óbeinum hætti til samskiptaörðugleika við bæjarstjórann. Frekari heimildir blaðsins herma að fleiri starfsmenn bæjarskrifstofunnar íhugi alvarlega að segja upp störfum vegna óánægju á vinnustaðnum með stjórnunarhætti bæjarstjórans.

Þórður Kristleifsson, sem gegnt hafði stöðu skrifstofustjóra á bæjarskrifstofunni frá árinu 2000, var fyrstur til að hætta en hann lét af störfum í maí á síðasta ári. Í kjölfarið réð Sigurður Magnússon bæjarstjóri Björn Steinar Pálmason til starfsins, en hann entist ekki nema níu mánuði í starfi, því hann hefur ákveðið að láta af störfum og er nú unnið að samkomulagi um starfslokasamning við hann.

Starfsmaður með samskiptafærni óskast

Í atvinnuauglýsingu frá sveitarfélaginu sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudaginn er auglýst ný staða fjármálastjóra, en skipta á stöðu skrifstofustjóra í tvö ný störf, fjármálastjóra og bæjarritara. Á meðal hæfniskrafna í auglýsingunni eru afar góðir samskiptahæfileikar.

Launafulltrúi bæjarins hætti í júní eftir tólf ára starf hjá sveitarfélaginu og það gerði félagsmálastjóri sveitarfélagsins sömuleiðis í október, eftir níu ára starfsferil. Þá fjölgaði starfsmönnum bæjarskrifstofunnar um einn í október, en þá voru ráðnir tveir starfsmenn í stað félagsmálastjórans, en tæpur mánuður leið frá því að hann hætti og þar til nýr starfsmaður var ráðinn til starfa. Á þeim tíma var lágmarks félagsþjónusta veitt hjá bænum.

Ekki náðist í Sigurð Magnússon, bæjarstjóra Álftaness, við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Í hnotskurn
Bæjarskrifstofa sveitarfélagsins er til húsa að Bjarnastöðum á Álftanesi. Á skrifstofunni starfa sex manns í fullu starfi og fjórir í hlutastarfi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert