Einar: „Mjög ánægjulegt“

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson. Árvakur/ÞÖK

„Það er auðvitað mjög ánægjulegt að þetta hafi tekist hjá okkur, að mæla nægilega mikið magn loðnu til að hægt væri að gefa út kvóta,“ segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, sem í dag heimilaði loðnuveiðar á ný.

„Til grundvallar liggur það að við teljum nauðsynlegt að skilja eftir 400.000 tonn í sjó af loðnu áður en við getum farið að gefa út aflaheimildir. Og nú tókst að mæla það mikið að það var forsenda fyrir því að bæta við aflaheimildirnar og í hlut Íslendinga koma um 100.000 tonn,“ segir Einar í samtali við mbl.is og bætti við að búið sé að veiða um 40.000 tonn þannig að eftir standi 60.000 tonn.

„Þetta eru auðvitað mjög gleðileg tíðindi. Þetta verður augljóslega ekki stór vertíð, en það má ætla að langstærstur hluti af því veiðimagni sem kemur í hlut Íslendinga fari til manneldisvinnslu, bæði frystingar loðnu og loðnuhrognum,“ segir Einar og bætir því við að hann telji að hlutfallslega séð verði verðmætið gott. 

Aðspurður segir Einar að fylgst verði með miðunum og reynt verði að mæla áfram. „Ég vil alls ekki gera úr því skóna að það leiði til hækkunar vegna þess að um það ríkir óvissa, og það er engin ástæða til að reyna að vekja upp neinar falsvonir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert