Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), hét í gær aðstoð sinni við að sannfæra aðildarríki NATO um að taka þátt í lofthelgiseftirliti á Íslandi.
Að loknum fundi með Geir H. Haarde forsætisráðherra í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel sagði Scheffer að hann liti á það sem „hlutverk sitt og ábyrgð“ að fá fleiri ríki til að leggja fram orrustuþotur til að líta eftir íslenzku lofthelginni. Ekki væri þörf á því til skemmri tíma litið, enda hafa nokkur ríki nú þegar lofað þotum til að sjá um ársfjórðungslegt eftirlit á Íslandi. Hins vegar gæti komið að því síðar. „Það er plús fyrir aðildarríkin sjálf að vera staðsett á Íslandi í nokkrar vikur,“ sagði Scheffer.
Geir H. Haarde rifjaði upp atbeina Scheffers að því að koma á áætlun um eftirlit með lofthelgi Íslands eftir að varnarlið Bandaríkjanna hvarf af landi brott. „Við erum mjög ánægð með þá staðreynd að mörg NATO-ríki hafa sýnt áhuga og vilja til að taka þátt í lofthelgiseftirlitinu,“ sagði Geir.